Afhending nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2012

31.10.2012

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2012 fyrir verkefnið SignWiki, en verðlaunin voru í dag 30. október afhent í annað sinn.  Hér er  tengill á frekari upplýsingar um verkefnið.

Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu á Grand hótel Reykjavík. Í ár voru 62 verkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum tilnefnd  til nýsköpunarverðlauna.  Verðlaunin til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra voru veitt vegna verkefnisins "SignWiki". Verkefnið er upplýsingakerfi og þekkingarbrunnur þar sem táknmálsorðabók og táknmálsnámi er miðlað í tölvur, spjaldtölvur og síma. Þetta er ný nálgun sem byggir á opinni og virkri þátttöku þar sem málsamfélagið og áhugafólk um táknmál eru þátttakendur og leggja til námsefni og tákn.  SignWiki nýtist sem orðabók, til kennslu og í samskiptum við heyrnarlausa, fyrir almenning og til rannsókna og hefur gjörbreytt aðgengi að táknmáli og  miðlun þess.  

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu.  Það voru Blindrabókasafn Íslands fyrir "Librodigital", Orkustofnun fyrir "Varmadæluvefur", Öldrunarheimili Akureyrar fyrir "Hænsnahöllin", Reykjavíkurborg fyrir "Betri Reykjavík" og Sjúkratryggingar Íslands fyrir "Réttindagátt - gagnagátt".  Hér er  tengill þar sem nálgast má upplýsingar um þessi verkefni.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands ávarpaði ráðstefnuna. Jakob Schjörring, sérfræðingar hjá Mindlab í Danmörku fjallaði um aðferðafræði við nýsköpun í opinberum rekstri sem byggir á samstarfi við notendur þjónustunnar.  Inga Jóna Jónsdóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ kynnti nýjar lausnir í opinberri starfsemi og fjallaði um stjórnunarlegar athafnir sem skila árangri.  Að lokum ræddi Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka iðnaðarins um opnun nýrra leiða til nýsköpunar í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila.

Meðfylgjandi er merki nýsköpunarverðlauna í opinberum rekstri og mynd af þeim sem tóku á móti verðlaunum og viðurkenningum fyrir hönd stofnana sinna ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Halldóri Halldórssyni formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Verðlaun og viðurkenningar í opinberri þjónustu og stjórnsýslu er samstarfsverkefni Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Rannís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Tilgangur með samstarfinu er að vekja athygli  á nýsköpun sem fram fer í opinberri starfsemi . Bera verkefnin sem tilnefnd hafa verið til þessara verðlauna þess vitni að nýsköpun er stunduð í ríkum mæli í stofnunum ríkis og sveitarfélaga og að hugkvæmni og sköpunargleði er beitt  til að leysa verkefni samfélagsins sem eru á höndum opinberra aðila með nýstárlegum,  hagkvæmum og árangursríkum hætti. Þetta framtak hefur jafnframt hvatt til frekari nýsköpunar í starfi hins opinbera en um leið gefið jákvæð skilaboð til samfélagsins um grósku í starfi hins opinbera, aukið virðingu fyrir opinberum rekstri og stolt starfsmanna af starfsvettvangi sínum.  Upplýsingar um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu má nálgast á vefnum  www.nyskopunarvefur.is









Þetta vefsvæði byggir á Eplica