Opið samráð um áherslur Uppbyggingarsjóðs EES 2014-2021

27.5.2016

Í dag hefst opið samráð um áherslur Uppbyggingarsjóðs EES fyrir nýtt starfstímabil, 2014-2021. Allt frá gildistöku EES-samningsins hafa EFTA-ríkin innan EES, Noregur, Ísland og Liechtenstein, skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í þessari skuldbindingu felst að EES/EFTA-ríkin fjármagna í gegnum sjóðinn ýmsar umbætur og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Viðtökuríki sjóðsins á tímabilinu eru 15 talsins og öll í Suður- og Austur-Evrópu.

Auk þess að draga úr ójöfnuði í Evrópu er annað meginmarkmið fólgið í að styrkja tvíhliða tengsl EES/EFTA-ríkjanna við viðtökuríkin. Slíkt samstarf hefur m.a. leitt af sér markvissa þekkingaruppbyggingu og samfélagslegar umbætur í viðtökuríkjunum og ekki síst skapað tækifæri til tengslamyndunar, alþjóðlegs verkefnasamstarfs og viðskipta fyrir fjölda íslenskra félagasamtaka, stofnana, skóla, fyrirtækja og einstaklinga. Á næsta starfstímabili Uppbyggingarsjóðsins munu opnast tækifæri fyrir samstarf íslenskra aðila við viðtökuríkin á enn fjölbreyttari sviðum en hingað til hefur verið raunin.

Samningaviðræðum við ESB um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES lauk árið 2015 og var samningur á milli ESB og EES-/EFTA-ríkjanna um bókun 38c við EES-samninginn undirritaður 3. maí sl. Á sjóðstímabilinu verður úthlutað 1.548.1 milljónum evra sem Ísland, Noregur og Liechtenstein leggja sameiginlega til sjóðsins. Framlög ríkjanna byggja á vergri  landsframleiðslu og nemur hlutur Íslands um 3 % og  mun á tímabilinu verða um 7 milljarðar.

Í svokallaðri blábók eru skilgreindir 5 forgangsgeirar (priority sectors) sem greinast í 22 áætlanasvið (programme sectors), sem styrkirnir þurfa að falla að. Að samráðsferlinu loknu, 8. júlí 2016, mun endanlega vera gengið frá blábókinni.

Markmið opna samráðsins

Drögin að blábókinni, sem unnin hefur verið af sérfræðingum EES-/EFTA-ríkjanna, byggja m.a. á samheldnistefnu Evrópusambandsins, reynslu frá fyrri sjóðstímabilum Uppbyggingarsjóðsins og tillögum frá alþjóðastofnunum. Haft hefur verið víðtækt samráð innan stjórnsýslunnar hér á landi undir forystu utanríkisráðuneytisins við önnur ráðuneyti, stofnanir og helstu hagsmunaaðila sem málið varðar í vinnslu draganna.

Tilgangur samráðsins er að veita hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og tillögum varðandi efnisatriði blábókarinnar. Þannig gefst nú aðilum sem hyggja að þátttöku í samstarfsverkefnum á vegum Uppbyggingarsjóðsins á næsta starfstímabili sjóðsins, tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og tillögum að efnistökum blábókarinnar.

Markhópur

Samráðsferlið er öllum opið og vonir standa til að breiður hópur hagsmunaðila taki þátt í því. Þátttakendur geta verið einstaklingar eða stofnanir sem hafa áhuga á eða reynslu frá þátttöku í verkefnum á vegum Uppbyggingarsjóðsins. Þeir geta verið frá EES/EFTA-ríkjunum, viðtökuríkjunum, þriðja ríki eða aðilar sem starfa þvert á landamæri. Þá geta þátttakendur í samráðsferlinu skilað athugasemdum við ákveðna efnisþætti blábókarinnar eða einstök áherslusvið.

Tímarammi

Tímafrestur til þess að skila inn athugasemdum eða tillögum við drögin að blábókinni rennur út 8. júlí 2016.

Hvernig skal skila inn athugasemdum/tillögum

Opna samráðið grundvallast á könnun sem byggir á opnum spurningum. Í upphafi könnunarinnar er spurt um hvort þátttakandi taki þátt í samráðsferlinu sem einstaklingur eða fyrir hönd stofnunar. Þá er óskað eftir upplýsingum um þátttakandann (nafn stofnunar, kontaktupplýsingar, hagsmuni, reynslu af þátttöku í verkefnum á vegum sjóðsins eða áhugasvið, möguleg samstarfsríki). Í framhaldinu gefst þátttakendum tækifæri til þess að svara spurningum sem varða þau áætlanasvið sem viðkomandi hefur áhuga á. Í lok könnunarinnar eru almennar athugasemdir.

Tímalengd könnunarinnar veltur á þeim fjölda áætlanasviða sem þátttakandi ákveður að gera athugasemdir við. Mögulegt er að vinna könnunina í fleiri en einni lotu. Vinsamlegast athugið að svör við könnuninni berast ekki fyrr en smellt hefur verið á lokið-takkann (done) á síðustu blaðsíðu könnunarinnar.

Þess er óskað að svör aðila berist á ensku og í einu framlagi.

Hér er hægt að taka þátt í opnu samráði vegna blábókarinnar.

Næstu skref

Að loknu samráðsferlinu verður lögð lokahönd á skilgreiningu forgangsgeira og áætlanasviða sjóðsins fyrir sjóðstímabilið 2014-2021 í endurskoðaðri útgáfu af blábókinni. Í framhaldinu er gengið frá samstarfssamningi (MoU) milli EES-/EFTA-ríkjanna þriggja og hvers viðtökuríkis sem kveður á um þau áætlanasvið sem hljóta styrk hverju sinni. Þegar gengið hefur verið frá samstarfssamningum verða áætlanir mótaðar í samvinnu EES/EFTA-ríkjanna og rekstraraðila áætlana (Programme Operators) á grundvelli þarfa, markmiða og afkastagetu í hverju viðtökuríki sem og tvíhliða markmiðum samstarfsríkjanna.

Kynningarfundur

Fimmtudaginn 9. júnín.k. stendur utanríkisráðuneytið í samstarfi við RANNÍS fyrir kynningarfundi um Uppbyggingarsjóð EES 2014-2021. Fundurinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík kl. 8.30-12:30

Frekari upplýsingar

Tæknilegar spurningar varðandi samráðsferlið má senda á netfangið consultationQA@efta.int

Frekari upplýsingar um Uppbyggingarsjóðinn veitir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, netfang: irp [hjá] mfa.is

Vinsamlegast athugið að allar athugasemdir varðandi blábókina skal senda í gegnum könnunina á netinu, ekki er hægt að skila inn athugasemdum gegnum ofangreind netföng.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica