Skrifstofa IASC flytur til Akureyrar

17.3.2016

Alþjóðlega norður­skauts­vísindanefndin (IASC) samþykkti samhljóða á fundi sínum í Fairbanks í Alaska þ. 14. mars sl. boð frá Rannís um að skrifstofa nefndarinnar flytjist til Akureyrar frá Potsdam í Þýskalandi um næstu áramót. Ríkisstjórn Íslands ákvað um miðjan febrúar, að tillögu forsætisráðherra, að veita fjármagni til reksturs hennar til næstu 5 ára. 

Markmið IASC er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og að veita ráðgjöf til stjórnvalda um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum og hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Auk vísindasamtaka í norðurskautsríkjunum átta eiga aðild að nefndinni vísinda- og rannsóknarstofnanir frá Austurríki, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Portúgal, Póllandi, Suður Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi.

Meginstarfsemi nefndarinnar fer fram í vinnuhópum sem eru fimm talsins samkvæmt eftirfarandi flokkun viðfangsefna: Landupplýsingar (Terrestrial System), freðhvolf (Cryosphere System), hafvísindi (AOSB/Marine System) mann- og félagsvísindi (Human & Social Systems) og gufuhvolf (Atmosphere System).

Íslenskir vísindamenn taka virkan þátt í starfi allra þessara hópa. Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, er formaður vinnuhóps um landupplýsingar og Halldór Björnsson, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands, er varformaður hóps um gufuhvolf. Steingrímur Jónsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er fulltrúi Íslands í vinnuhópi um hafvísindi. Joan Nymand Larsen, vísindamaður hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og dósent við Háskólann á Akureyri, er fulltrúi í vinnuhópi um mann- og félagsvísindi og Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, er fulltrúi í vinnuhópi um freðhvolf. Þau taka öll þátt í fundum þessara vinnuhópa sem haldnir eru um þessar mundir á vísindaviku norðurslóða í Fairbanks.

Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands. Síðan IASC var stofnað hefur Ísland átt forseta samtakanna tvö tímabil. Magnús Magnússon, fyrrverandi prófessor, var forseti samtakanna á árunum 1993-1997 og Kristján Kristjánsson, forstöðumaður við Háskólann í Reykjavík, áður sviðsstjóri hjá Rannís, var forseti IASC 2006-2010. Núverandi fulltrúi í aðalstjórn IASC er Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur Rannís og kynnti hann tilboð Rannís um flutning á skrifstofunni fyrir stjórninni.

Skrifstofa IASC verður hýst hjá Rannís í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi á lóð Háskólans á Akureyri, en þar eru fyrir sem kunnugt er allmargar stofnanir sem sérhæfa sig í rannsóknum, vöktun og miðlun upplýsinga um málefni norðurslóða. Auk þess starfar á Akureyri sérhæft fyrirtæki, Arctic Portal, við söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um norðurslóðir. Á Akureyri er því öflugt norðurslóðasamfélag undir einu þaki sem gæti skapað ýmiss konar samvirkni við IASC skrifstofuna.

Staða stjórnanda skrifstofunnar verður auglýst laus til umsóknar á næstunni.

Gera má ráð fyrir að starfsemi IASC skrifstofunnar hér á landi geti haft eftirfarandi ávinning í för með sér:

  • Veitir íslensku vísindasamfélagi aðgang að öflugasta tengslaneti vísindamanna á Norðurslóðum og eykur þar með möguleika íslenskra vísindamanna til að vinna með erlendum kollegum, í tengslum við ráðstefnur og rannsóknaverkefni
  • Eykur áhuga vísindamanna frá öðrum þjóðum á vísindasamstarfi við Ísland.
  • Íslenskir rannsóknaaðilar geta miðlað af þessu samstarfi til kollega sinna á Norðurlöndunum og til annarra erlendra samstarfsaðila.
  • Styrkir þá norðurslóðastarfsemi sem fyrir er á Akureyri
  • Auðveldar að fleiri alþjóðlegum rannsóknamiðstöðvum verði komið upp hér á landi.

 Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Gunnarsson , Rannís

Þetta vefsvæði byggir á Eplica