Tæpar 20 milljónir evra til rannsókna og þróunar í tengslum við djúpborunarverkefni í jarðhita

4.1.2016

Rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, hefur veitt styrk upp á tæpar tuttugu milljónir evra til rannsókna og þróunar við jarðhitanýtingu á Reykjanesi og í suðurhluta Frakklands. 

HS Orka er í forystu fyrir verkefnið en auk þeirra standa Landsvirkjun, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og GEORG að verkefninu sem og þátttakendur frá Frakkalandi, Þýskalandi, Ítalíu og Noregi. Þetta er stærsti einstaki styrkur sem veittur hefur verið til verkefnis undir íslenskri stjórn í Horizon 2020 og munu 45% af styrknum, eða um 1,3 milljarðar, nýtast beint til rannsókna á Íslandi.

Rannsóknarverkefnið kallast DEEPEGS og er styrkurinn til 4 ára. Um mitt næsta ár er fyrirhugað að 2,5 km djúp vinnsluhola á Reykjanesi verði hreinsuð, fóðruð djúpt með steyptri stálfóðringu niður fyrir 3 km og svo dýpkuð í 4-5 km. Niðurdæling og vinnslutilraunir munu standa yfir næstu 2 árin á eftir eða svo.

Tilgangur  með rannsóknarverkefninu DEEPEGS er að sýna fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem örvuð eru með hjálparaðgerðum af einhverju tagi. Með niðurdælingu vatns um 5 km djúpar borholur í funheitt berg má að líkindum vinna varmann úr berginu upp úr nálægum grynnri borholum. Franski hluti verkefnisins gengur út á að sýna fram á slíka vinnslu á tveimur stöðum í Suður-Frakklandi þar sem berghiti er um 200°C. Íslenski hluti verkefnisins snýst um að sýna fram á það sama en í mun heitara bergi, eða um 500°C á 4-5 km dýpi undir Reykjanesi. Ef lekt í djúpu jarðlögunum á Reykjanesi eða í Frakklandi reynist ekki nægjanleg verður beitt örvunaraðgerðum til að auka vatnsleka og er umtalsverður hluti styrksins ætlaður í þróun og rannsóknir á slíkum aðgerðum.

Vinnslutæknin í íslenska hluta verkefnisins á Reykjanesi ræðst af því hvernig jarðhitavökvi finnst á 4-5 km dýpi. Ef efnasamsetningin reynist viðráðanleg og unnt verður að vinna yfirhitaða, orkuríka gufu beint upp úr djúpu borholunni verður það fyrsti valkostur. Ef efnasamsetning vökvans reynist hins vegar of erfið verður vatni frá yfirborði dælt ofan í holuna til að efla orkuvinnslu úr grynnri nærliggjandi holum.

Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) stóð að því fyrr á þessu ári að sótt væri um styrkinn til að styðja við rannsóknir í tengslum við fyrirhugaða borun holu IDDP-2 á Reykjanesi. Djúpborunarverkefnið (IDDP) hefur staðið yfir í um 15 ár. Að IDDP standa íslensku orkufyrirtækin, Landsvirkjun, HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur, ásamt Orkustofnun. Jafnframt tóku Alcoa og Statoil  þátt í IDDP á árum 2007-2012, ásamt því að erlendir rannsóknarsjóðir (ICDP og NSF) styðja við verkefnið varðandi bergkjarnatöku og bergfræðirannsóknir. Statoil hefur nú aftur gengið til liðs við IDDP. Nánar má lesa um IDDP á heimasíðu verkefnisins . Á árunum 2008-2009 var fyrsta djúpborunarholan, IDDP-1, boruð við Kröflu og lenti hún í 900°C heitri kviku á 2,1 km dýpi. Þar tókst að sýna fram á að vinna mætti mikla orku úr yfirhitaðri gufu úr berginu rétt ofan við bráðna bergkviku, og áformar Landsvirkjun að halda áfram tilraunum með slíka orkuvinnslu þar á næstu árum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica