Útgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á Íslandi aukast verulega

21.2.2023

Útgjöld til rannsókna og þróunar á árinu 2021 hækka um 25% frá árinu 2020. Um 15,8 milljarða aukning er á útgjöldum fyrirtækja til rannsókna- og þróunarstarfs og 2,4 milljarða aukning hjá háskólum. Telja má víst að skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna hjá fyrirtækjum sé að hafa hvetjandi áhrif en útgjöld fyrirtækja aukast þrefalt meira en aukin opinber stuðningur.

  • ISS_24519_00123

Hagstofa Íslands hefur birt upplýsingar um heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2021 sem sýna mestu aukningu sem orðið hefur í útgjöldum milli ára. Alls var varið 91 milljarði króna til rannsókna og þróunarstarfs árið 2021 en það jafngildir 2,80% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er þetta hæsta hlutfall útgjalda til málaflokksins af vergri landsframleiðslu sem mælst hefur frá því að Hagstofa Íslands tók við umsjón tölfræðinnar árið 2014. Aukningin í krónum talið milli ára eru rúmir 18,3 milljarðar króna og er aukningin á hlut rannsókna og þróunar í landsframleiðslu rúm 25%. Árið 2018 voru útgjöld til rannsókna og þróunar 56,9 milljarðar króna (2,01%) og nemur aukningin á þremur árum 34,1 milljarði króna sem er 60% aukning.

Mynd-1-frett-Utgjold-til-rannsokna-og-throunarstarfs-a-Islandi-aukast-verulega-21.02.2023

Heimild: Hagstofa Íslands  

 Eins og myndin ber með sér er aukningin að stórum hluta til komin vegna aukinna rannsókna og þróunarumsvifa fyrirtækja. Fyrirtæki ráðstafa 72% af heildarútgjöldum árið 2021 og hafa útgjöld þeirra aukist um tæplega 16 milljarða króna frá árinu áður. Er það fordæmalaus aukning milli ára. Aukning háskólastofnana eru um 2,4 milljarðar króna og aukning annarra opinberra stofnana er óveruleg eða rúmlega 100 m.kr. Nánari sundurliðun er birt í töflunni hér að neðan.

Útgjöld til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 2015-2021
Allar einingar Fyrirtæki Háskólar Aðrar opinberar stofnanir
m.kr. % m.kr. % m.kr. % m.kr. %
heild VLF heild VLF heild VLF heild VLF
2015 50.408 100 2,18 33.265 66,0 1,44 14.798 29 0,64 2.345 5,00 0,1
2016 52.997 100 2,11 34.148 64,0 1,36 16.350 31 0,65 2.499 5,00 0,1
2017 55.062 100 2,08 35.416 64,0 1,34 17.344 31 0,66 2.302 4,00 0,1
2018 56.900 100 2,00 36.603 64,0 1,29 17.928 32 0,63 2.369 4,00 0,1
2019 70.808 100 2,32 48.660 69,0 1,60 19.885 28 0,65 2.263 3,00 0,1
2020 72.697 100 2,47 49.397 68,0 1,68 20.852 29 0,71 2.447 4,00 0,1
2021 91.033 100 2,80 65.231 72,0 2,01 23.229 25 0,71 2.573 3,00 0,1

Heimild: Hagstofa Íslands

Útgjöld fyrirtækja eru nú í fyrsta sinn yfir 2% af vergri landsframleiðslu og heildarútgjöld nálgast 3% sem margar þjóðir hafa haft sem viðmið eða markmið. Ísland styrkir þannig verulega stöðu sína í samanburði við önnur Evrópuríki. Meðalútgjöld 27 ríkja Evrópusambandsins til rannsókna og þróunarstarfs eru 2,26% af vergri landsframleiðslu árið 2021 en voru 2,19% árið 2018 (sjá mynd hér að neðan). Hæst var hlutfallið í Svíþjóð árið 2021 eða 3,36%, næsthæst Belgíu eða 3,22%, í Austurríki var það 3,19% og í Þýskalandi 3,13%. Ísland er á þessum lista meðal Evrópuþjóða í sjöunda sæti eins og það hefur verið síðustu ár. Í engu Evrópuríkjanna hefur verið eins mikil aukningin í útgjöldum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eins og sl. fjögur ár á Íslandi.

Mynd-2-frett-Utgjold-til-rannsokna-og-throunarstarfs-a-Islandi-aukast-verulega-21.02.2023

Heimild: Eurostat  

 Hagstofan birti jafnframt tölur um fjölda starfa og ársverk í fyrsta sinn síðan 2017. Þar kemur fram að mikil aukning hefur átt sér stað og störfuðu um 7.900 við rannsóknir og þróun árið 2021 samanborið við 6.200 árið 2017. Aukningin hefur verið mest í fyrirtækjum og eru þar um 55% þeirra sem starfa við rannsóknir og þróun, tæp 40% í háskólum og um 5% hjá öðrum opinberum stofnunum.

Þróun ársverka gefur ennþá nákvæmari mynd af þeim mannafla sem sinnir rannsóknum og þróun en þau voru 4.400 árið 2021 samanborið við 3.200 árið 2017 og nemur aukningin tæpum 40%. Skiptingu eftir aðilum má sjá á myndinni hér að neðan. Mest aukning var í ársverkum tæknifólks í fyrirtækjum sem tvöfaldast á þessum tímabili. Ársverkefnum hjá öðrum opinberum stofnunum en háskólum fækkar um nærri 40% á þessum tímabili.

Mynd-3-frett-Utgjold-til-rannsokna-og-throunarstarfs-a-Islandi-aukast-verulega-21.02.2023

Heimild: Hagstofa Íslands

Opinber stuðningur við rannsóknir og nýsköpun hefur aukist á undanförnum árum eins og sjá má á mynd hér að neðan sem sýnir þróun fjárveitinga til helstu sjóða og skattfrádráttar rannsókna og nýsköpunar í fyrirtækjum á árunum 2015-2021. Þessi aukning hefur án efa ýtt undir aukið umfang rannsókna og þróunar en aukningin er mun meiri en skýra má með opinberum stuðningi. Opinber stuðningur vegna þessara úrræða sem Rannís sér um, vex milli 2020 og 2021 um 6,7 milljarða króna, en heildarútgjöld til rannsókna og þróunar aukast um 18,3 milljarða. Hér munar mest um aukinn stuðning í formi skattfrádráttar sem tvöfaldast milli 2020 og 2021 og fer úr 5,2 í 10,4 milljarða króna. Sú fjárfesting virðist skila sér þrefalt til baka því fyrirtæki auka rannsókna- og þróunarstarf sitt um ríflega þrefalda þá upphæð eða um 15,8 milljarða króna.

Mynd-4-frett-Utgjold-til-rannsokna-og-throunarstarfs-a-Islandi-aukast-verulega-21.02.2023

Heimild: Rannís

Ágúst H. Ingþórsson, forstöðumaður Rannís

Þetta vefsvæði byggir á Eplica