Úthlutun Nordplus 2025

6.5.2025

Úthlutað hefur verið úr Nordplus áætluninni um 12,4 milljónum evra til 326 verkefna og samstarfsneta sem hefjast árið 2025. Alls bárust 609 umsóknir um styrki upp á samtals rúmlega 31,5 miljón evra. 

  • NORDPLUS-Keyboard-button

Úthlutað hefur verið tæplega 12,4 milljónum evra úr Nordplus áætluninni til 326 verkefna og samstarfsneta sem hefjast á árinu 2025. Alls bárust 609 umsóknir að þessu sinni og sótt var um styrki fyrir um 31,5 milljón evra. Samtals voru því um 54% umsókna samþykkt og úthlutunin nemur um 39% af umsóttri upphæð. 

Vaxandi áhugi og metfjöldi umsókna

Fjöldi umsókna heldur áfram að aukast og hefur ekki verið hærri síðan árið 2016. Umsóknum fjölgaði um 12% frá því í fyrra, úr 544 í 609.  Fjárhæðir sem sótt er um hækka einnig, sem sýnir fram á mikinn áhuga á áætluninni meðal menntastofnana á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.

Ísland átti um 8% umsókna, sem er sama hlutfall og fyrri ár, sem telst góður árangur miðað við íbúafjölda. Þetta sýnir sterka þátttöku íslenskra stofnana í norrænu samstarfi og metnað fyrir alþjóðavæðingu í menntastarfi.

Samstarf, þróun í skólastarfi og tungumál

Nordplus er menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem veitir styrki til samstarfs á öllum skólastigum með það að markmiði að:

  • efla hreyfanleika nemenda og kennara

  • styðja verkefnasamstarf og tengslamyndun

  • efla norræn tungumál og menningu

  • auka gæði menntunar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum

Styrkir eru veittir innan fimm undiráætlana og hefur Rannís yfirumsjón með Norrænu tungumálaáætluninni, sem veitir styrki til tungumálaverkefna. Í ár kynnti áætlunin nýjan verkefnaflokk, Norræn tungumálanámskeið, með góðum árangri en í hana bárust fimm umsóknir og hlutu fjórar þeirra brautargengi. 

Fjölbreytt þátttaka og nýliðar

Á árinu 2025 tóku alls 3.612 stofnanir og samtök þátt í umsóknum, sem er 13% aukning frá árinu áður. Þar af eru 2.464 stofnanir í þeim umsóknum sem hafa verið samþykktar – sem er einnig hæsta tala síðustu fimm ára.

Nýliðun í áætluninni er áfram mikil. Í fjórum af fimm undiráætlunum voru 45–68% umsækjenda nýir, og var sérstaklega mikil nýliðun í Norrænu tungumálaáætluninni. 

Nánari upplýsingar

Sjá nánar um niðurstöður úthlutunar á vef Nordplus: www.nordplusonline.org

Rannís hefur umsjón með Nordplus á Íslandi og veitir ráðgjöf og upplýsingar fyrir stofnanir sem vilja sækja um styrki eða hefja samstarf innan áætlunarinnar.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica