Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2016

19.1.2016

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, þriðjudaginn 26. janúar nk. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sl. sumar.

Stjórn sjóðsins hefur valið fjögur öndvegisverkefni sem unnin voru sumarið 2015 en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.

Verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi leggja stund á. 

Verkefnin sem tilnefnd eru til verðlaunanna 2016 eru:

  •   Innigarður: Heimaræktunarkerfi fyrir kryddjurtir byggt á vatnsgeli unnu úr brúnþörungum
  • Íðorðasafn og myndun nýrra íðorða í lífvísindum
  • Náttúrutúlkun á grænum svæðum í Reykjavík: Stöðumat og nýjar lausnir fyrir ferðamenn og íbúa
  • Þekkirðu fuglinn? Rannsókn á fuglafræðiþekkingu barna og þróun og gerð spils sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik.

Nánar um öndvegisverkefni Nýsköpunarsjóðs námsmanna 2016:

Innigarður: Heimaræktunarkerfi fyrir kryddjurtir byggt á vatnsgeli unnu úr brúnþörungum

Í nútímasamfélagi sem einkennist af hraða er mikilvægt að hlúa að samskiptum fjölskyldunnar, rækta virðingu fyrir mat og miðla sjálfbærum lífsstíl á milli kynslóða. Matmálstími fjölskyldunnar gegnir þar mikilvægu hlutverki. 

Innigarður er heimaræktunarkerfi sem auðveldar fólki að rækta kryddjurtir. Jurtirnar vaxa í vatnsgeli, sem unnið er úr brúnþörungum, sem býður upp á lágtæknikerfi. Efnið er staðbundið og brotnar niður í náttúrunni. Gelið er þannig samsett að það inniheldur öll þau næringarefni sem plantan þarfnast og er sjálfvökvandi kerfi. 

Þegar kemur að því að draga úr orkunotkun skiptir rúmmál og þyngd efnis miklu máli. Við flytjum inn mikið af kryddjurtum en einnig flytjum við inn mikið af mold sem er umfangsmikil og þung. 
Vatnsgel hefur þá eiginleika að hægt er að frostþurrka það og með því er hægt að draga margfalt úr rúmmáli og þyngd. 

Í rannsókninni var lögð áhersla á að þróa vatnsgel fyrir grænlinga. Grænlingar eru næringarríkar kryddjurtir sem vaxa á 7 -14 dögum og gefa matnum bæði lit og bragð. Tilraunir sem gerðar voru sumarið 2015 leiddu í ljós að hægt er að rækta heilbrigða grænlinga í vatnsgelinu. Ræktunargelið reyndist mjög einfalt og notendavænt þar sem ekki þurfti að vökva plönturnar yfir ræktunartímann.

Næstu skref eru að koma á frekara samstarfi við sérfræðinga á sviði efna- eða lífefnafræði til að fullvinna ræktunarefnið. Í framhaldinu væri áhugavert að kanna möguleikann á því að þróa ræktunarefni fyrir aðrar kryddjurtir eins og basiliku og fleira. Með Innigarði verður ræktun við íslenskar aðstæður einfaldari, en varan gæti einnig verið kjörin til útflutnings þar sem ræktunarefnið er létt og fyrirferðarlítið. 

Verkefnið var unnið af Brynju Þóru Guðnadóttur, nemanda við Listaháskóla Íslands, og Grétari Guðmundssyni nemanda við Háskóla Íslands, í samstarfi við Matís ohf. Leiðbeinendur voru Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, Svinnu, Valgerður T. Gunnarsdóttir, Listaháskóla Íslands, og Gissur Örlygsson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Íðorðasafn og myndun nýrra íðorða í lífvísindum

Íðorðasafn og myndun nýrra íðorða í lífvísindum er íðorðaverkefni sem unnið var af íslenskunemanum Einari Lövdahl Gunnlaugssyni sumarið 2015. Leiðbeinendur voru Ágústa Þorbergsdóttir, umsjónarmaður íðorðastarfs við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Erna Magnúsdóttir, rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild Háskóla Íslands.

Með söfnun og skrásetningu íðorða var komið til móts við þörf á íslenskum íðorðum sem vaknað hafði innan lífvísindasamfélagsins hér á landi. Þar að auki var staða íslenskrar tungu styrkt innan fræðasamfélagsins en sé sofið á verðinum þegar kemur að íðorðastarfsemi innan tiltekins fræðasviðs er hætta á að möguleikinn á að fjalla um fræðin á íslensku skerðist eða glatist hreinlega með öllu.

Verkefnið fólst í megindráttum í söfnun íðorða sem lúta að erfðafræði, frumulíffræði, þroskunarfræði og þróunarfræði og skipulagðri skrásetningu þeirra. Söfnun orða var unnin í samvinnu við helstu sérfræðinga á umræddum fræðasviðum og afrakstur þess var íðorðasafn með 600 nýjum flettum sem hefur verið bætt við Líforðasafn (1997) og gert aðgengilegt á vefnum (ordabanki.hi.is).

Náttúrutúlkun á grænum svæðum í Reykjavík: Stöðumat og nýjar lausnir fyrir ferðamenn og íbúa

Verkefnið Náttúrutúlkun á grænum svæðum í Reykjavík: Stöðumat og nýjar lausnir fyrir ferðamenn og íbúa var unnið af Shaunu Laurel Jones og Guðbjörgu Runólfsdóttur, nemendum við Háskóla Íslands sumarið 2015. Í verkefninu var stuðst við fyrirbærafræði og skapandi hugsun til að þróa nýjar nálganir til að auka umhverfisvitund notenda grænna svæða, fá fleiri til að nota rýmin og auka skilning borgarbúa og gesta á mikilvægi svæðanna. Auk fræðilegra skrifa um hvernig náttúrutúlkun gæti verið háttað var hannað skema til að meta hverskonar náttúrutúlkun var til staðar. Ítarlegt stöðumat var unnið fyrir fjögur svæði innan Reykjavíkur: Laugarnes, Rauðhóla, Ægisíðu og skógarbút í Breiðholti. Fyrir hvert svæði var þróuð ný hugmynd að náttúrutúlkun, sem var sérsniðin að hverju svæði, með tilliti til staðhátta, notendahópa og tækifæra til hughrifa. Innan sveitarfélaga og borgarrýma eru fjölmörg tækifæri til að takast á við stærsta umhverfismál samtímans, loftslagsbreytingar. Eitt þessara tækifæra felst í auknum tengslum borgarbúa við náttúruna og umhverfið sem hefur jákvæð áhrif á almenna vellíðan og eykur umhverfisvitund.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg. Leiðbeinendur voru Katrín Anna Lund, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Snorri Sigurðsson, líffræðingur PhD, Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.

Þekkirðu fuglinn? Rannsókn á fuglafræðiþekkingu barna og þróun og gerð spils sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik

 Þekkirðu fuglinn? er þriggja mánaða rannsóknarverkefni sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2015. Verkefnið er hugarsmíð Birgittu Steingrímsdóttur líffræðinema við Háskóla Íslands og Heiðdísar Ingu Hilmarsdóttur vöruhönnunarnema við Listaháskóla Íslands. Umsjónarmenn verkefnisins voru þau Gunnar Þór Hallgrímsson dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands, Kristrún Thors sjálfstætt starfandi vöruhönnuður og stundakennari við Listaháskóla Íslands og Valgerður Þórisdóttir grunnskólakennari í Selásskóla.

Viðfangsefni verkefnisins eru af tvennum toga; rannsókn á núverandi þekkingu barna á íslenskum fuglum og í framhaldi af því hönnun og gerð spils um fuglana sem kennarar geta nýtt sem námsgagn í náttúrufræði.

Í upphafi sumars var lögð könnun fyrir tæplega  400 nemendur í 4. bekk á höfuðborgarsvæðinu þar sem athugað var hvort þeir þekktu algengustu og mest einkennandi fugla í náttúru Íslands. Einnig voru kennsluhættir í fuglafræði skoðaðir. Í framhaldi af því tók við hönnun og gerð spilsins Fuglafár sem hefur það að markmiði að hjálpa börnum að þekkja útlit fuglanna og nöfn þeirra. Auk þess fá börnin ýmsar upplýsingar um þá, svo sem þyngd og lengd, fjölda eggja í hreiðri og hvaða ættbálkum þeir tilheyra ásamt skemmtilegum texta um hvern fugl.

Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri þekkingu grunnskólabarna á íslenskum fuglum með því að koma fram með nýstárlegar kennsluaðferðir sem auka fræðslu í gegnum leik. Samhliða því að kveikja áhuga barna á fuglunum er vonin sú að Fuglafár stuðli að enn frekari áhuga þeirra á náttúru Íslands og auki skilning á mikilvægi hennar.

Spilið hefur verið í prófun í grunnskólum í vetur og fengið góðar undirtektir. Næstu skref eru að hefja framleiðslu og munu umsagnir kennara og nemenda nýtast til betrumbóta svo að spilið verði að enn betra kennslutæki.

 

Nánari upplýsingar veitir Svandís Sigvaldadóttir , verkefnastjóri á rannsókna- og nýsköpunarsviði, í síma 515 5817.

Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Í stjórn sjóðsins sitja: Einar Gunnar Guðmundsson, formaður, skipaður án tilnefningar, Steinunn Gestsdóttir, tilnefnd af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Magnús Oddson, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Heiða Kristín Helgadóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Yrsa Úlfarsdóttir, tilnefnd af Bandalagi ísl. námsmanna og Stúdentaráði Háskóla Íslands. Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, sem eru fjögur, sjá nánar á síðu sjóðsins. Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og fyrsta sinn.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica