Styrkir Rannsóknasjóðs leggja grunninn að vísindarannsóknum á Íslandi

4.11.2022

Í nýútgefinni skýrslu háskóla-, iðnaðar, og nýsköpunarráðuneytisins um áhrifamat á Rannsóknasjóði kemur meðal annars fram að Rannsóknasjóður telst ómissandi í vísindasamfélaginu á Íslandi. Sjóðurinn veitir styrki til grunnrannsókna sem eru mikilvægir fyrir framgang vísinda á Íslandi. Styrkirnir gefa m.a. ungu fólki tækifæri til menntunar og stuðla að nýliðun vísindasamfélagsins. Rannsóknasjóðsstyrkir eru stór hluti fjármögnunar rannsókna innan íslenskra háskóla og stofnana.

  • Pexels-thisisengineering-3862130

Rannsóknasjóður er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Hlutverk sjóðsins er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja, sem og nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi á Íslandi. Styrktegundir eru fjórar: verkefnisstyrkir, öndvegisstyrkir, nýdoktorastyrkir og doktorsnemastyrkir. Sjóðurinn úthlutar einu sinni á ári. Rannís er umsýsluaðili Rannsóknasjóðs.

Umsóknir sem berast Rannsóknasjóði fara í gegnum faglegt mat, annars vegar eru þær rýndar af ytri matsmönnum sem starfa utan Íslands og hins vegar af fagráðum Rannsóknasjóðs, sem skipuð eru sérfræðingum á viðkomandi sviði. Fagráð Rannsóknasjóðs eru sjö:

  • Raunvísindi og stærðfræði
  • Verkfræði og tæknivísindi
  • Náttúruvísindi
  • Lífvísindi
  • Klínískar rannsóknir og lýðheilsa
  • Félagsvísindi, lögfræði og menntavísindi
  • Hugvísindi og listir.

Í skýrslu um áhrifamat voru borin saman fagráð sem ná yfir raun- og náttúruvísindi og félags- og hugvísindi.

Í skýrslunni var unnið með gögn frá árunum 2011 til 2015. Áhrifamatið leiðir í ljós að mikil aðsókn var í styrki úr Rannsóknasjóði og fór umsóknum fjölgandi á tímabilinu. Árangurshlutfall var að meðaltali rétt yfir 20% og var engan tölfræðilegan mun að finna á milli kynja eða fagsviða.

Áhrifamatið undirstrikar mikilvægi Rannsóknasjóðs fyrir grunnrannsóknir auk menntunar og framgangs ungra vísindamanna á Íslandi innan menntastofnana og í atvinnulífinu almennt. Áhrifanna gætir á breiðum grunni í samfélaginu og þekkingin og reynslan sem skapast leggja gruninn að nýliðun í vísindum og nýsköpun í atvinnulífinu. Í því samhengi má sérstaklega nefna viðhorf fulltrúa hátæknifyrirtækja, sem birtast á skýrslunni, en þau líta á Rannsóknasjóð sem mikilvægan hlekk í þjálfun vísindafólks sem seinna meir verða ómissandi mannauður innan hátæknigeirans.

Áhrifamatið verður til umræðu á Rannsóknarþingi, fimmtudaginn 24. nóvember n.k.

Áhrifamatið, sem gefið var út á ensku, er aðgengilegt í heild sinni hér.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica