Stefnumót við vísindamenn í Háskólabíói á föstudaginn

19.9.2011

Vísindavaka Rannís verður haldin föstudaginn 23. september kl. 17-22 í Háskólabíói.

Á Vísindavöku gefst kostur á að hitta vísinda- og fræðimenn og kynnast viðfangsefnum þeirra frá fyrstu hendi. Í ár verður sýningarsvæðið glæsilegt sem endranær, en einnig er góð aðstaða til að bjóða upp á lifandi vísindamiðlun á sviði og verða atriði í gangi allt kvöldið, allt frá stuttu Vísindakaffispjalli til Sprengjugengisins alræmda. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða ýmsar afurðir og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Allir finna eitthvað við sitt hæf á Vísindavöku, og er sérstök áhersla lögð á að ná til ungs fólks - framtíðarfræðafólks okkar! Nánar á www.visindavaka.is

Í aðdraganda Vísindavöku er hellt upp á hið sívinsæla Vísindakaffi á Súfistanum, Máli og menningu Laugavegi, frá mánudegi til fimmtudags, kl. 20-21.30 hvert kvöld. Að auki verður boðið upp á Vísindakaffi á Akureyri, fim. 22. sept. Fæðingin, sagnfræðipælingar, náttúruperlur, loftslagsbreytingar og offita barna, eru efni Vísindakaffis Rannís í ár. Nánar á www.visindavaka.is

Látið sjá ykkur á Vísindavöku 2011!









Þetta vefsvæði byggir á Eplica