Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hlýtur viðurkenningu fyrir vísindamiðlun

23.9.2011

Við setningu Vísindavöku 2011 var Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness veitt viðurkenning fyrir vísindamiðlun.

Sverrir Guðmundsson ritari félagsins veitti viðurkenningunni viðtöku, úr hendi forstöðumanns Rannís, Hallgríms Jónassonar.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hljóta viðurkenningu Rannís 2011 fyrir vísindamiðlun, en þeir sem standa að Stjörnuskoðunarfélaginu og Stjörnufræðivefnum hafa verið mjög ötulir við að fræða almenning, og sérstaklega börn og ungmenni um undur alheimsins.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness var stofnað þann 11. mars árið 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins sem þá var, og er enn, á þaki Valhúsaskóla. Stofnfélagar voru tuttugu talsins en í dag eru félagsmenn rúmlega 300 talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur en núverandi stjórn skipa Sævar Helgi Bragason (formaður), Sverrir Guðmundsson (ritari) og Óskar Torfi Viggósson (gjaldkeri). Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og fjölmennasta félag áhugafólks um stjörnufræði og stjörnuskoðun hér á landi. Félagið er öllum opið og eru félagsfundir haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann.

Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum viðburðum. Þeir félagar hafa brallað ýmislegt í gegnum tíðina til kynningar á stjörnufræði og má þar helst nefna:

Námskeið:  Meira en 200 manns hafa sótt almenn námskeið félagsins í stjörnufræði og stjörnuskoðun, bæði á Höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Álíka fjöldi barna á aldrinum 5 til 12 ára hafa sótt sérstök barnanámskeið í stjörnufræði. Einnig ber að nefna endurmenntunarnámskeið fyrir kennara. Öll námskeiðin eru haldin í samstarfi við Stjörnufræðivefinn.

Sjónauki í alla skóla landsins: Árið 2010 tók félagið þátt í að gefa öllum skólum á Íslandi lítinn stjörnusjónauka. Námsefni um sjónaukann hefur verið útbúið og er aðgengilegt á Stjörnufræðivefnum. Aðstandendur verkefnisins, Sævar, Sverrir, Ottó og Tryggvi, heimsóttu samanlagt yfir 170 skóla um allt land þegar sjónaukarnir voru afhentir. Með hverjum sjónauka fylgdi heimildarmynd á DVD disk um 400 ára sigurgöngu stjörnusjónaukans.

Stjörnuskoðunarkvöld: Undanfarin ár hefur félagið staðið fyrir stjörnuskoðun fyrir almenning. Þá gefst gestum og gangandi kostur á að kíkja í gegnum sjónauka félagsmanna og læra um stjörnuhimininn.

Sólskoðun á 17. júní og Menningarnótt: Þegar veður leyfir þessa hátíðisdaga fara félagsmenn út með sólarsjónauka og sýna fólki á öllum aldri sólina á öruggan hátt. Mörg hundruð manns sjá og fræðast um sólina af tilefni.

Ókeypis stjörnufræðihugbúnaður: Áhugasamir geta fengið stjörnuhiminninn í tölvuna sína með því að sækja Stellarium hugbúnaðinn sem hefur verið þýddur yfir á íslensku.

Ljósmyndasýning: Á ári stjörnufræðinnar 2009 tók félagið þátt í ljósmyndasýningu á Skólavörðuholti í tilefni Menningarnætur 2009. Þar voru til sýnis yfir 20 stórar og fallegar ljósmyndir af undrum alheimsins. Þær voru svo fallegar að nokkrum var stolið! Sýningin stóð yfir í um mánuð og sáu hana mörg þúsund manns.

Tunglmyrkvaskoðun: Hrollkaldan desembermorgun árið 2010 stóðu Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn fyrir tunglmyrkvaskoðun fyrir framan húsakynni RÚV í Efstaleiti. Yfir 300 manns lögðu leið sína til okkar og fengu að skoða Satúrnus, Venus og auðvitað rautt, almyrkvað tungl. Atburðinum var útvarpað í Morgunútvarpi Rásar 2.

Útgáfa á fréttabréfum og veglegu tímariti: Ár hvert gefur félagið út fréttabréf sem send eru félagsmönnum. Annað hvert ár gefur félagið út mjög veglegt tímarit um stjörnufræði. Næsta er væntanlegt í október og er verið að safna auglýsingum og styrktaraðilum!

Vísindavaka: Stjörnuskoðunarfélagið tekur að sjálfsögðu alltaf þátt í Vísindavöku Rannís!!

Að eigin sögn eru forystumenn félagsins alltaf að trana sér fram í fjölmiðlum og nota hvert tækifæri sem gefst til að segja fólki frá því sem er að gerast í heimi stjörnufræðinnar og ekki síst ef eitthvað áhugavert er að sjá á himninum.

Stærsta verkefni félagsins um þessaar mundir er svo að færa aðstöðuna út fyrir bæinn. Allt fé sem safnast við sölu á varningi (blaði, sjónaukum o.þ.h.) og námskeiðum er ætlað til þess að byggja upp nýja aðstöðu, fjarri allri ljósmengun.

Nokkur orð um Stjörnufræðivefinn:

Stjörnufræðivefurinn, www.stjornufraedi.is, er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Vefnum er ætlað að efla áhuga almennings á stjarnvísindum og auðvelda aðgengi að vönduðu efni um stjörnufræði á íslensku. Vefurinn var settur á laggirnar snemma árs 2004 og hefur síðan vaxið fiskur um hrygg. Á vefnum er að finna meira en 500 greinar um stjarnfræðileg viðfangsefni, allt frá sjónaukum og reikistjörnum til svarthola og vangaveltna um líf í alheimi.

Í viku hverri birtast á vefnum fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjarnvísindum. Mynd vikunnar er á sínum stað og í hverjum mánuði er gefið út Stjörnukort mánaðarins. Stjörnufræðivefurinn er margmiðlunarvefur og eru þess vegna reglulega birt vefvörp frá Hubble geimsjónaukanum og Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli. Undanfarin ár hefur vefurinn staðið að Vísindaþættinum í Útvarpi Sögu en þættirnir eru aðgengilegir á vefnum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica