Evrópska fyrirtækjavikan 3.-9. október

3.10.2011

Nýsköpun - uppspretta verðmæta.
Evrópska fyrirtækjavikan (SME week) verður haldin dagana 3. - 9. október 2011

Tvö undanfarin ár hefur ein vika á ári verið  helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða evrópska fyrirtækjavikan. Í ár er vikan tileinkuð frumkvöðlum sem eru að takast á við það ferli sem fylgir frumkvöðlastarfi öðru sinni og nú með nýja eða breytta hugmynd í farteskinu. 

Frumkvöðullinn Tóti Stefánsson er talsmaður vikunnar í ár fyrir Íslands hönd með fyrirtækið sitt Mobilitus. Hann kemur til með að deila reynslu sinni í pallborðsumræðu í Brussel fimmtudaginn 6. október þar sem fjöldi reynslumikilla frumkvöðla kemur saman gagngert til að deilda reynslu sinni. Tóti stofnaði fyrirtækið sitt að nýju árið 2007 eftir að hafa siglt í gjaldþrot 2006 þrátt fyrir að hafa náð góðri fótfestu á nokkrum mörkuðum. Brotthvarf lykilfjárfesta varð til þess að fyrirtækið varð gjaldþrota en Tóti og viðskiptafélagi hans létu ekki deigan síga og útveguðu sjálfir fjármagn og héldu áfram með þróun á on-line text-to-speech þjónustu fyrir fólk með lesblindu.

Staða og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, RANNÍS, Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins halda fjölbreytta viðburði í fyrirtækjavikunni í samvinnu við fleiri öfluga aðila í stuðningsumhverfi frumkvöðla sem nær hámarki með sameiginlegu Tækni- og hugverkaþingi föstudaginn 7. október.  Á þinginu verður fjallað um stöðu og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld og atvinnulífið geta unnið saman að því að koma nauðsynlegum umbótum í framkvæmd.

Atburðir í boði í evrópsku fyrirtækjavikunni:

  • Helgin 30. september - 2. október: Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Suðurnesjum
  • Mánudagurinn 3. október: Opnun á vefrænni upplýsingagátt fyrir fyrirtæki og einstaklinga
  • Þriðjudagurinn 4. október: EUROGIA + kynningarfundur og verkefnastefna
  • Miðviku- og fimmtudagurinn 5.- 6.  október:  Ferðamálaþingið UppLifðu
  • Föstudagurinn 7. október: Tækni- og hugverkaþing; Nýsköpun - uppspretta verðmæta

Markmið fyrirtækjavikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi. Allir áhugasamir eru hvattir til að sækja þá viðburði sem í boði eru - allar nánari upplýsingar um atburðina er að finna á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (www.nmi.is).









Þetta vefsvæði byggir á Eplica