Rannsóknarnámssjóður sameinast Rannsóknasjóði

11.1.2013

Samþykkt var á Alþingi 20. desember 2012 breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Breytingin fól meðal annars í sér að Rannsóknarnámssjóður var sameinaður Rannsóknasjóði, undir heitinu Rannsóknasjóður.

Úthlutanir úr Rannsóknasjóði fara að mestum hluta til að greiða laun og langstærstur hluti þeirra sem þiggja laun úr verkefnum sem styrkt eru af Rannsóknasjóði eru nemendur í doktors- eða meistaranámi. Sameining sjóðanna mun því leiða til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Jafnframt er að því stefnt að hið faglega mat umsókna muni styrkjast auk þess sem sameining Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs mun leiða til minni umsýslu.

Stjórn Rannsóknasjóðs mun fjalla um sameiningu sjóðanna og tryggja að sjóðurinn efli enn frekar rannsóknatengt framhaldsnám, einkum doktorsnám hér á landi. Upplýsingar um fyrirkomulag styrkja til doktorsnema verða birtar í lok febrúar.

Þeir nemendur sem  þegið hafa styrk úr Rannsóknarnámssjóði, fyrir sameiningu sjóðanna, halda óbreyttum  réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.

 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica