Fimm verkefni tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

15.1.2013

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru árlega veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verðlaunin voru fyrst veitt í ársbyrjun 1996 og hafa síðan verið veitt á ári hverju við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna 5-6 verkefni sem öndvegisverkefni sjóðsins og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.

Tilnefnd öndvegisverkefni

Eftirfarandi verkefni sem unnin voru á vegum sjóðsins sumarið 2012 hafa verið valin sem öndvegisverkefni sjóðsins og tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2013. Verðlaunin verða afhent í lok febrúar á Bessastöðum af forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni.

Notkun þrívíddarmódels og staðsetningartækja við undirbúning skurðaðgerða á höfði.
Nemandi: Sigrún Björk Sævarsdóttir, nemandi í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur: Paolo Gargiulo, Landspítala og Háskólanum í Reykjavík og Ingvar Hákon Ólafsson, Landsspíta.

OM-Hönnun, þróun og smíði nýs hljóðfæris
Nemandi: Úlfur Hansson, Listaháskóla Íslands. Leiðbeinandi: Hans Jóhansson - Fiðlusmíðaverkstæði.

Prófun á nýjum hröðunarnema til að meta stökkkraft
Nemandi: Ásdís Magnúsdóttir, nemandi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Baldur Þorgilsson, Kine ehf og Háskólanum í Reykjavík.

Reynslusögur kvenna á Akureyri frá seinni heimstyrjöld
Nemandi: Anna Kristín Gunnarsdóttir, nemandi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Rósa Þorsteinsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ströndin og skógurinn: Útivistarnotkun og sóknarfæri
Nemandi: Sindri Birgisson, nemandi í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeinendur: Helena Guttormsdóttir Landbúnaðarháskóla Íslands, Hrafnkell Proppé Landbúnaðarháskóla Íslands og Íris Reynisdóttir frá Akraneskaupstað.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna byggir mat sitt á öndvegisverkefnum á mati fagráða sjóðsins, sem eru fjögur; fagráð á sviði heilbrigðisvísinda, fagráð á sviði verkfræði, tæknivísinda og raunvísinda, fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda og fagráð á sviði hug- og félagsvísinda. Stjórn sjóðsins er skipuð fulltrúum frá Rannís, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins og Reykjavíkurborg.

Hulda Proppé hjá Rannís veitir nánari upplýsingar um Nýsköpunarsjóð námsmanna og Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica