Cristin, upplýsingakerfi rannsókna kynnt á Íslandi

27.10.2011

Rannís hefur nýverið kynnt hér á landi norskt upplýsingakerfi um rannsóknir, Cristin (Current Research Information System in Norway).

Kynningarfundur var haldinn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tóku fulltrúar háskóla, rannsóknastofnana, vísinda- og tækninefndar VTR og annarra ráðuneyta þátt í fundinum. Þær Katrine Weisteen Bjerde og Agnethe Sidselrud frá Cristin í Noregi kynntu upplýsingakerfið og svöruðu fyrirspurnum um notkun þess. Hægt er að nálgast kynningar frá fundinum hér að neðan.

Tilefni kynningarfundar var að Vísinda- og tækniráð samþykkti þann 1. apríl 2011 að "fela Rannís að vinna áfram að áætlun um mat á gæðum og árangri rannsókna hjá háskólum og stofnunum og hvernig tengja megi fjármögnun við gæði og árangur. Tillögur verði lagðar fram á haustfundi ráðsins til umræðu."

Eftir að hafa skoðað aðferðir við mat á gæðum og árangri í nokkrum nágrannalöndum hefur Rannís valið þann kost að kynna nánar tilhögun þessara mála í Noregi en þar hefur verið komið á fót nýrri aðferð við að úthluta fjármagni eftir árangri til rannsókna í norskum háskólum og stofnunum. Norska aðferðin byggist á þremur þáttum: a) grunnþáttur, b) menntunarþáttur og c) rannsóknaþáttur. Hluti af fjárveitingunni til rannsóknaþáttarins er árangurstengdur þar sem fjárveitingar eru byggðar á árangri samkvæmt líkani sem mælir birtar og skráðar rannsóknaniðurstöður. Upplýsingakerfi um rannsóknaþáttinn sem var tekið í notkun í Noregi á þessu ári nær til 170 stofnana, háskóla og heilbrigðisstofnana, nefnist Cristin (Current Research Information System in Norway) og skiptist í fimm efnisflokka: Rannsóknaniðurstöður, rannsóknaverkefni, vísindamenn, rannsóknahópar og ársskýrslur. Hér er tengill í heimasíðu upplýsingakerfisins.

Á fundinum var m.a rætt hvort, og þá hvernig Cristin gæti hentað til að halda utan um upplýsingar um rannsóknir frá háskólum og rannsóknastofnunum hér á landi og myndað safn upplýsinga sem hægt væri að miða við, þegar gæði og árangur í rannsóknum væri metinn, og einnig á síðari stigum ef ákvörðun yrði tekin um að tengja fjármögnun við gæði og árangur. Allflestir fundarmenn hvöttu til að Cristin upplýsingakerfið yrði skoðað áfram með það að markmiði að taka það upp hér á landi. Kynningarglærur um Cristin má nálgast undir eftirfarandi tenglum:

Cristin - Presentation of the system in Iceland

Cristin - How does it work?

Cristin - Open Access









Þetta vefsvæði byggir á Eplica