Sex íslenskir aðilar hljóta 154 milljónir til þróunar rafrænnar stjórnsýslu

2.1.2012

Gengið hefur verið frá úthlutun sex þróunar- og rannsóknastyrkja á sviði rafrænnar stjórnsýslu, samtals um 154 m.kr.

Um er að ræða styrki úr sameiginlegum rannsóknasjóði, Citizen-centric eGovernment Services, á vegum Rannís, NordForsk, Vinnova í Svíþjóð og ráðuneytis efnahags- og upplýsingamála í Eistlandi. Íslensk fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélag, samtök og háskólastofnun eiga aðild styrkjunum, ásamt sænskum og eistneskum samstarfsaðilum. Nokkrir samstarfsaðilar koma frá öðrum Norðurlöndum, en án styrkja frá sjóðnum. 

Fjölbreytt verkefni 
Íslensku styrkþegarnir eru: Þjóðskrá Íslands, Strætó bs.og íslensk íþróttasamtök, Íbúar, sem er sjálfseignastofnun í samstarfi við Reykjavíkurborg, Mannvirkjastofnun Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og IDEGA, sem tekur þátt í tveimur verkefnum, þar af öðru í samstarfi við Reykjavíkurborg. Átján umsóknir bárust og hlutu sex verkefni styrk.

Markmið styrkjanna er að stuðla að þróun frumgerðar að nýrri opinberri rafrænni þjónustu eða að þjónusta sem er fyrir hendi er verði bætt verulega með þarfir borgara og samfélags í huga.  Verkefnin sem fengu styrk eru fjölbreytt; þróun lýðræðishugbúnaðar, heildarkerfis fyrir aðgang borgara að rafrænni þjónustu (Citizen E-hub), þróun kerfis sem gerir aðgang almennings að þjóðskjalasöfnum (Cultural heritage) mögulegan, þróun kerfis til bilanatilkynninga og kvartana með farsíma- og tölvutækni, þróun rafrænna umsókna og úthlutana byggingaleyfa og loks birting lýðfræðilegra upplýsinga fyrir almenning á gagnvirku landakorti. Í hverju verkefni skal a.m.k. vera einn aðili frá hverju samstarfslandanna þriggja, Íslandi, Svíþjóð og Eistlandi, og einnig er í hverju verkefni a.m.k. einn fulltrúi opinberrar stjórnsýslu, einn frá rannsóknastofnun eða háskóla og einn frá fyrirtæki. Alls eru um fjörutíu samstarfsaðilar í verkefnunum sex.

Framhald styrkja frá 2010
Um er að ræða sjálfstætt framhald styrkja sjóðsins sem á árinu 2010 veitti 50 m.kr. til fimm þróunarverkefna sömu landa; um aðgang almennings að tölulegum upplýsingum hagstofa, að skjölum opinberra skjalasafna, um rafræna heilbrigðisþjónustu, rafrænar umsóknir um byggingaleyfi og heildarkerfi aðgangs borgara að rafrænni þjónustu (Citizen E-hub). Íslensku styrkþegarnir árið 2010 voru SKÝRR, IDEGA, Hagstofan, Mannvirkjastofnun og Þjóðskjalasafnið.

Nánari upplýsingar 
Nánari upplýsingar veitir Margrét S. Björnsdóttir Háskóla Íslands, en hún situr í stjórn verkefnisins fyrir hönd Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica